Kjötbollusalat

kjötbollusalatKjötbollurnar gerði ég um daginn til að taka með í vinnuna í kveðjukaffi, það er nebblileg alveg hægt að koma með eitthvað annað heldur en kökur þegar er svona kaffi. Það má alveg og allir alltaf til í smá kjötbollur. Afganginn notaði ég svo í kvöldmat daginn eftir bara.

Kjötbollur

 • 1 kg ungnauta hakk
 • 2 egg
 • 2 jalapeno ostar rifnir niður
 • salt og pipar
 • 4 msk hörfræja mjöl til að binda bollurnar betur saman – má sleppa
 1. Öllu blandað saman í skál
 2. Búið til litlar bollur eftir því hvað þú vilt hafa þær stórar og bakið í ofni í 15-30 mín við 175°C, fer eftir stærð.

Kjötbollusalat

 • Salar
 • Gúrka
 • Rauðlaukur
 • Jalapeno ostur í bitum
 • Avocado
 • Kjötbollur
 • Sósa að eigin vali með

 

Advertisements

Surf and turf og súkkulaðimús í eftirrétt

sumarÍ þessu dásamlega veðri í gær þá vorum við með gesti í hádegismat. Það var surf and turf í  þetta skiptið og borðað úti á svölum í fyrsta skipti í sumar 🙂

Uppskriftina af humrinum má sjá hér

Grilluð nautalund með klettasalati

 • Klettasalat
 • Prima Donna ostur skorinn eða rifinn yfir (eða parmesan ostur)
 • Nautalund elduð eins og hér skorin í þunnar sneiðar
 • olífuolía + balsamic edik + salt +pipar blandað saman og hellt yfir að lokum

Súkkulaðimús

Ég notaði uppskrift frá Jamie í grunninn sem ég aðlagaði að mínum þörfum ;

 • 100g dökkt eðal súkkulaði, minnst 70%
 • 1 dl rjómi
 • 3 egg
 • 25 g Erythritol
 • 1/2 msk kakó
 • 1/4 tsk appelsínubörkur
 • 1 msk Kahlua

Skál 1 – Bræðið súkkulaðið yfir heitu vatnsbaði

Skál 2 – Þeytið eggjarauður og erythritol þangað til létt og ljóst

Skál 3 – Þeytið eggjahvítur þangað til stífar

Skál 4 – Þeytið rjómann

Bætið kakói og rjómanum í skál 2, bætið appelsínuberki og Kahlua útí bráðna súkkulaðið (skál 1). Blandið þá súkkulaðinu hægt saman við skál 2 og blandið öllu vel saman svo að blandan verði samleit. Bætið eggjahvítunum við mjög varlega í lokin til þess að loftið haldist í blöndunni. Skiptið í 4 lítil mót, kælið í amk 2 klst og skreytið 🙂 ég sigtaði kakó yfir í lokin og var búin að hafa appelsínubörk í sólinni til að þurrka hann og notaði sem skraut ofan á.

Hamborgari

hamborgariTil að gera hamborgara finnst mér soldið nauðsynlegt að hafa brauð með. Ég notaði örbylgjubolluna hjá Kristu (sjá hér) og kryddaði með því sem mér fannst girnilegt (papriku, piri piri, chili ofl), ég hafði líka eina og hálfa uppskrift fyrir hvern hamborgara svo að bauðin yrðu aðeins stærri. Ég setti svo sesamfræin ofaná til að fá þetta klassíska hamborgarabrauðs útlit 🙂 Ekki skemmdi fyrir að ég fann skál svo að þetta kom meira segja út í laginu eins og hamborgara brauð. Ég grillaði svo líka brauðið til að fá þessar fallegu rendur í brauðið, við borðum stundum líka með augunum.

Hamborgarana geri ég líka alltaf sjálf og er alveg nauðsynlegt að fá gott hakk í þá og kaupi ég það alltaf í Kjötkompaní í hafnarfirði.

Hér er mín uppskrift fyrir 2 hamborgara:

 •  200g hakk
 • 1 egg
 • ca 1/4 af rifnum osti (ég notaði piparost)

Þessu er svo þjappað saman í tvær bollur og stekt á pönnu eða grillað 🙂 Restina af ostinum notaði ég svo til að búa til piparostasósu til að hafa með hamborgaranum. Svo máttu bara setja það sem þig lystir á borgarann, einfalt og þægilegt en svo rosalega gott!

Chili

imageÉg lenti í matarboði hjá góðvinum mínum Kára og Elínu og var þar í boði svona Chili, síðan þá er mig búið að langa að búa til svona sjálf, hræra í potti í marga tíma og slumpa rauðvíni útí eftir hentugleika, þið vitið gera eitthvað gourmet 😉 Loksins dreif ég í þessu og ég tók mér tvo daga í þetta. Ég sem sagt byrjaði á að saxa grænmeti og kjötið á miðvikudagskvöldi eftir kvöldmat og mallaði fram eftir kvöldi og svo aftur á fimmtudagseftirmiðdag í dágóðan tíma. Þetta þarf kannski ekkert, flestar uppskriftir sem ég skoðaði voru að malla í 1-3 tíma kannaki, en mér finnst kjötið verða einhvern veginn betra og allt verður einhvernveginn meira mauk og mér finnst það betra. Ég er líka ekkert brjálaðslega hrifin af nautahakki þannig að í þessari uppskrift notaði ég hakkað nautagúllas. Hér fáið þið mína útgáfu af þessum vinsæla rétt. p.s þetta er líklega matur fyrir ca 12 manns en dásamlegt að eiga í frysti 🙂

 •  1 kg nautagúllas (hakkað í hakkavél eða maukað í matvinnsluvél)
 • 3 laukar – saxaðir
 • 4 meðalstórar gulrætur – saxaðar
 • 3 rauðar paprikur – saxaðar
 • 4 sellerí stönglar – saxaðir
 • 4 hvítlauksgeirar – saxaðir
 • 400g kjúklingabaunir
 • 400 g nýrnabaunir
 • 4×400 g niðursoðnir tómatar
 • 300 mL vatn
 • 3 tsk kanill
 • 3 tsk chili duft
 • 2 tsk cumin
 • sjávarsalt
 • nýmalaður pipar
 • ca 3 dl rauðvín eða eftir smekk
 • ca 30 g af 70% súkkulaði eða eftir smekk
 • ferskur kóríander og lime safi við framreiðslu
 1. Allt grænmeti brúnað í potti með smá smjörklípu. Kjötinu er svo bætt við og brúnað örlítið.
 2. Kjúklingabaunum og nýrnabaunum ásamt niðursoðnum tómötum bætt í pottinn og vatni líka.
 3. Allt er svo soðið saman og kryddað eftir smekk. Rauðvíni og súkkulaði bætt í eftir smekk.
 4. Hrærið í reglulega svo að brenni ekki við.
 5. Sjóðið í 2-8 tíma eða eftir smekk.

Með kássunni gerði ég smá Avocado blöndu:

 • saxað avocado
 • saxaður rauðlauk
 • ferskur kóríander
 • lime safi
 • salt og pipar

Gott er að hafa líka sýrðan rjóma og þeir sem vilja geta líka borðað snakk eða hrísgjón með sínum rétt.

Alvöru nautakjöt að hætti Heston

Heston kjötLoksins er ég komin aftur að matseldinni. Ég er sem sagt búin að vera frá í soldinn tíma vegna endajaxlatöku sem að fór ekki alveg eins og ég ætlaði mér. Ég endaði á Landspítalanum í aðgerð og gat þá ennþá minna borðað… Seinasta kvöldmáltíðin fyrir herlegheitin þá tók ég verulega á því og við Daði vorum bókstaflega í marga daga að undirbúa matarboðið. Ekki leiddist okkur það 🙂 Hér að ofan sjáum við þetta fallega nauta rib eye frá Kjötkompaníinu.

Þetta er sem sagt frá nýja uppáhalds vini okkar Heston sjá hér. Kjötið er látið standa svona nakið í ísskápnum í tvo sólarhringa eins og sést á fyrstu myndinni. Kjötið er svo tekið út nokkrum tímum fyrir eldun til að ná herbergishita og saltað. Olía er hituð á pönnu þangað til að hún er orðin sjóðheit, þá er kj0tið steikt á hverri hlið í 15 sek í senn og svo snúið. Þetta er gert þangað til hitastigið á kjötinu nær 45°C fyrir rare eldun. Kjötið er svo látið standa í 5-10 mín áður en að skorið er í það. Það er svo piprað rétt fyrir átu.

Þetta er án efa besta kjöt sem við höfum smakkað og voru gestirnir líka ánægð með afraksturinn 🙂

Chilipottréttur, í hamborgara eða bara einn og sér

20121216-202819.jpg

Seinast  þegar ég eldaði Chili prófaði ég að gera grunn uppskrift frá Marie Laveau veitingastaðnum sem er hægt að sjá hér, en ég held að hún sé eitthvað skrítin, allt of mikið að kryddum í henni, ég breytti henni allavega eitthvað þegar ég prófaði hana. Þessi uppskrift er eiginlega blanda af nokkrum uppskriftum, svo ég veit ekki alveg hvort ég geti nefnt einhverja eina sem tilvísun, en þetta var allavega mjög gott.

Chili con carne

 • 1.5 kg nautakjöt (högrev á sænsku, einhver mjög fitumikill og sprengdur framhluti, ekki hugmynd hvað það heitir á íslensku)
 • 2 gulir laukar hakkaðir
 • 6-8 hvítlauksrif
 • 4-5 msk chipotle sósa eða ferskur chipotle chili (Ef maður finnur ekki chipotle sósu má nota meira af BBQ sósu í staðin)
 • 2-3 tsk reykt paprikukrydd
 • 2-3 tsk spiskummin
 • 3-4 tsk oregano
 • 1 dl tómatsósa (eða BBQ sósa, smá sykur í þessu en ok…).
 • 1 tsk cayanne pipar (smakka til með meira eða aðeins minna)
 • 1 tsk chili (smakka til með meira eða aðeins minna)
 • Má setja slettu af viskíi eða öðru bragðsterku áfengi, en ekki nauðsynlegt.

20121216-202829.jpg

Kjötið brúnað í góðum potti með slatta af smjöri eða olíu. Öllu öðru bætt útí og látið malla í pottinum í 5-6 klst, því lengur því betra. Borið fram annaðhvort sem “hamborgari”  með avocado, tómötum og sýrðum rjóma eða bara í skál með sýrðum rjóma.  Þetta fékk að malla á meðan ég var að gera súkkulaði trufflurnar og piparkökurnar sem ég er að fara með í vinnuna á morgun.

Ítalskar kjötbollur og sósa

CIMG2842Þessar slógu í gegn í kvöld! það þarf bara ekkert að ræða það meira. Þessar uppskriftir eru í bókinni Hollusturéttir fjölskyldunnar e. Berglindi Sigmarsdóttur sem að mamma var svo elskuleg að lána mér . Ég aðlagaði uppskrftina bara að stærð fjölskyldunnar.

Kjötbollur

 • ca 500 g nautahakk  (eða ca 1 pakka)
 • 200 g blandaðar hnetur og möndlur (heslihetur, möndlur, valhentur, brasilíuhnetur, eða bara það sem þú átt)
 • 1/2 búnt fersk basilika
 • 4-5 hvítlauksrir
 • sjávarsalt
 • nýmalaður svartur pipar
 • 1/2 tsk paprika
 • 2 egg
 • smjör til að steikja uppúr, má nota aðra feiti

Hneturnar eða möndlur eru malaðar fínt svo að líkist brauðrasp. Basilika og hvítlaukur svo hakkað saman í matvinnsluvél eða töfrasprota. Öllu blandað saman í skál og ég gerði eins og höfundur bókarinnar og setti þetta allt saman bara í hrærivélina og lét hnoðast saman. Bollur mótaðar og brúnaðar á pönnunni í smjörinu. Bollurnar eru svo bakaðar í ofni við 200°C í 10 mín til að elda þær í gegn.

Tómatsósa

 • 4 x (400g) tómatar í dós
 • 6 hvítlauksrif
 • 2 msk ólífuolía
 • 10 basilikublöð
 • 1 1/2 tsk oregano
 • 2 msk agavesíróp (má sleppa)
 • sjávarsalt
 • nýmalaður svartur pipar

Olían og hvítlaukurinn látið malla við lágan hita en passa að brenna ekki. Basilikublöðunum bætt útí. Öllum tómötunum svo bætt útí og kryddunum. Sósan er svo látin malla við lágan hita í um 45 mín. Agavesírópið er svo sett alveg í lokin áður en að sósan er borin fram. Við skelltum svo töfrasprotanum á sósuna rétt í lokin og áferðin varð alveg dásamleg.

Ég mæli svo bara með fersku salati (jafnvel með fetaosti) með þessu og málið er dautt!