Bakað eggaldin með grænmetis og kjúklingabaunasalati

Ég þarf klárlega að fara baka meira eggaldin eins og í þessum rétt, þetta er samt eiginlega svona ísskápa hreinsunarréttur. Hægt að setja allt mögulegt ofaná eggaldinin, svo innihaldið er alls ekkert heilagt, endilega breyta og bæta og nota það sem manni finnst gott og það sem er til.

Bakað eggaldin

 • 3 eggaldin skorin í helminga
 • Ólífuolía
 • Rósmarín
 • Timian
 • Salt og pipar
 1. Eggaldin lögð í ofnfast mót með sárið upp
 2. Ólífuolíu, rósmarín, timian og salti og pipar er blandað saman í skál og gerð smá kryddlögur sem er svo penslaður á eggaldin. Um að gera bara að bæta við ólífuolíu eða kryddum ef að fyrsta blanda var ekki nóg.

Ofaná

 • 1 ferna kjúklingabaunir (ca 400 gr)
 • 1 rauðlaukur
 • 1 græn paprika
 • 2 tómatar
 • ólífur að vild
 • fetaostur
 • sólþurrkaðir tómatar
 1. Rauðlaukur, paprika, tómatar hakkað smátt og öllu blandað saman í skál
 2. Lagt ofaná eggaldinin og bakað þangað til eggaldinin eru mjúk eða í ca 30-40 mín

Borðist með bestu lyst!

 

 

2015/01/img_0432.jpg

Advertisements

Halloumilasagna með nýrnabaunum og ólífum

Held það sé löngu komin tími á að ég skelli inn eins og einni uppskrift hérna. Ég er alveg alltaf að elda mat og prófa mig áfram, en er bara orðin dáldið löt að taka myndir og skrifa um það, sorry. Þá eru það bara svona gullmolar eins og þessi uppskrift sem að komast inná síðuna, ekki hvað sem er. Ég bauð uppá þetta dýrindis lasagna á Valborg og var líka svona rosalega ánægð með það. Myndin er nú ekkert hrikalega lokkandi, en mér finnst hins vegar titillinn svo lokkandi að það myndi alveg duga. Uppskriftin er komin frá uppáhalds heimasíðunni minnir þessa daganna sem heitir mat.se, þar kaupi ég allan minn mat og fæ sendan heim til mín þegar ég vil. Og svo eru þau neflilega líka með uppskriftir, eins og t.d. þessa. Þessi uppskrift dugði fyrir helling af fólki, myndi segja fyrir ca 8 manns í aðalrétt með léttu salati.

 • 4 laukar
 • 6-7 hvítlauksrif
 • 2-3 fernur hakkaðir tómatar
 • 3 fernur eða ca 8 dl soðnar nýrnabaunir
 • 1 krukka ólífur
 • 600 gr halloumiostur
 • Lasagnaplötur
 • Rifin cheddar ostur eða pizzuostur ofanà
 • Ferskt oregano
 • salt og pipar
 • Cayannepipar
 • Spiskummin
 • Paprika
 • Timian
 • Karrý
 1. Laukur og hvítlaukur steiktur í smjöri eða olíu, hakkaðir tómatar blandaðir saman við og kryddað frálslega með þeim kryddum sem ég nefni. Làtið malla eins lengi og maður nennir, því lengra því betra.
 2. Bæta nýrnabaununum saman við àsamt ólífum sem búið er að skera í minni sneiðar.
 3. Skera halloumiostinn í þunnar sneiðar
 4. Setjið saman lasagnað, fyrst ca 1/4 af tómatsósunni svo lasagna plötur, svo sósu – lag af halloumi sneiðum (helminginn af ostinum) – lasagnaplötur, sósu restina af halloumi ostinum og svo enda à sósu og ost ofanà.
 5. Baka í ofninum í ca 30-40 mín

20140502-194724.jpg

Eggaldin með hnetuyndi, fetaostmauki og granatepli

Jæja, komin tími til að ég fari að setja inn einhverjar uppskriftir hérna, ekki bara Guðríður. En ok ég er búin að hafa góða afsökun, ég var í burtu nánast allan janúar í Nýja Sjálandi og Ástralíu og þá var ekki mikið verið að elda mat inni á hótelherbergjunum. En nú er ég löngu komin aftur og allt nokkurnvegin komin í rútinu og ég er allaveganna byrjuð að elda á nánast hverjum degi. Þessi réttur hérna er algjörlega innblástur frá Láru Maríu vinkonu sem oft tipsar mig um góða grænmetisrétti. Þessi er held ég bara minn uppáhalds grænmetisréttur sem ég hef smakkað og alls ekkert vesen að búa hann til. Grunnin af réttinum er hægt að finna í nokkrum matreiðslubókum, meðal annars held ég grænmetisbók Hagkaups (ég fékk bara senda mynd í tölvupósti 🙂 )

Eggaldin með hnetuyndi (fyrir ca 4)

 • 2 stór eggaldin
 •  ca 2 msk olífuolía
 • ca 2 msk sítrónusafi
 • 1 tsk timian
 • 1/2 tsk salt

Hnetuyndið

 • 1 ferna kjúklingabaunir soðnar
 • 2 dl ristaðar hnetur (ég nota heslihnetur og möndlur) má líka nota kasjú en það er eitur í mínum maga svo það er ekki notað hér
 • 1 dl ajvar relish (eggaldin og paprikumauk) eða grilluð paprika úr krukku
 • 4 stk sólþurrkaðir tómatar eða meira eftir smekk
 • 2-3 hvítlauksrif
 • 2 msk nýpressarðu limesafi
 • 1 msk ferskur smáttsaxaður chilipipar eða 1/2 tsk þurrkaður chilikrydd
 • 1 tsk salt
 • 1-2 tsk timian
 • 2 msk sesamfræ
 • rifinn börkur af lime
 • (timian, sesamfræin og limebörkurinn koma í staðin fyrir 2 1/2 msk af zahtar kryddblöndu sem ég hef ekki fundið ennþá útí búð)

Fetaostmauk

 • 2 dl hrein jógúrt (ég hef notað tyrkneska jógúrt líka)
 • 1 dl fetaostur
 • timian, sesamfræ og limebörkur eða 2 msk zahtar kryddblanda
 • salt og pipar

Skreytt með granatepli

 1. Eggaldin skorin í helminga langsum og skerið í sárið rákir á ská. Blandið olíunni, sítrónusafa, timian og salti og pipar saman og penslið. Setjið í ofnskúffu og bakið við 200 gráður í ca 35 mín.
 2. Hnetuyndið: Setjið allt í matvinnsluvél og maukið
 3. Fetaostmaukið: Stappið fetaostin með gafli og hrærið öllu saman
 4. Setjið saman hvern “bát” eggaldin, hnetuyndi, fetaostmauk og svo skreytt með granatepli og jafnvel timiani.

Tips: Ef maður klárar ekki hnetuyndið er það alveg tilvalið að nota það sem álegg á brauð eða meðlæti með öðrum mat.

20131202-214833.jpg

Grænkàls og sveppa lasagna

Þessi réttur er liður í grænmetisrétta-átakinu mínu og er alveg hrikalega einfaldur og mjög góður. Uppskriftin er já, eins og venjulega aldrei alveg eins og stendur á blaðinu, en hugmyndin er frá blaðinu Buffé sem ég fæ frá Ica keðjunni fyrir að vera dyggur viðskiptavinur hjá þeim. Þeir mæla líka með því að það sé hægt að breyta uppskriftini með t.d. bara spínati eða mangold eða blöndu af þessu öllu. Hægt að prófa sig áfram með það sem manni finst gott.

20131123-194410.jpg

 

Grænkáls og sveppa lasagna

 • 500 gr sveppir (ég notaði venjulega og portabello sveppi)
 • 1 gulur laukur
 • ca 3-4 hvítlauksrif
 • 300 gr grænkál
 • 100 gr spínat
 • ca 2 dl rifinn parmesean ostur
 • 400 gr rjómaostur
 • 3 dl mjólk
 • Venjulegur ostur rifinn ofaná, magn að vild
 • salt og pipar
 • Lasagnaplötur eftir þörf, ég notaði spínatplötur
 1. Hitið ofnin í 200 gráður.
 2. Sveppirnir skornir niður í sneiðar eða bita og steiktir á pönnu í smjöri/olíu í nokkrar mínútur.
 3. Laukurinn og hvítlaukurinn hakkaður í smátt og bætt útí sveppina, og steikt áfram í nokkrar mínútur. Blandan sett í skál og geymd á meðan grænkálið er steikt
 4. Grænkálið steikt á pönnu þangað til það er búið að minnka í rúmmáli og orðið mjúkt, þá er spínatinu bætt útí og steikt áfram í stutta stund.
 5. Mjólk, rjómaosti og parmesean osti bætt útí og einnig sveppunum og lauknum og látið malla í smá stund
 6. Lasagnað sett saman. Fyrst gumsið og svo plötur, haldið áfram þar til gumsið er búið, endið á gumsinu og setjið svo rifin ost ofaná
 7. Bakað í ofni í 20-30 mín, eða þar til plöturnar eru orðnar mjúkar.

 

20131123-194423.jpg

Grænmetisbuff úr sætum kartöflum og hvítum baunum með myntu- og gúrkusósu

Ég er búin að vera í smá bloggpásu þar sem ég var í siglingu á Göta Kanal, það er sem sagt skipaskurður milli Stokkhólms og Gautaborgar. Um borð í bátnum var nánast ólöglegt að vera með síma, hvað þá tölvur og vera að blogga.En nú er ég komin aftur og byrjuð að elda mat aftur.
Í kvöld skín sólin og gott að borða kannski aðeins léttari mat svona á sumrin, svo í kvöld gerði ég grænmetisbuff handa okkur með kaldri myntu- og gúrkusósu. Hugmyndina fékk ég úr matreiðlsubók sem ég fletti í gegnum heima hjá Elínu Birnu sem ég heimsótti í stutta stund í Gautaborg, en eins og svo oft áður geri ég bara svona það sem mér dettur í hug.

Grænmetisbuff úr sætum kartöflum og hvítum baunum

 • 4 hnefastórar sætar kartöflur
 • 2 fernur af 400 gr af hvítum baunum
 • 1 rauðlaukur
 • 3 hvítlauksrif
 • 2 sallatslaukar
 • 2 egg
 • 4 msk möndlumjöl
 • 3 tsk fiberhusk eða meira möndlumjöl
 • salt, pipar, gott að setja nóg af cayanne pipar og einhver önnur krydd sem manni finnst passa.
 1. Sætu kartöflurnar eru skornar í helming og eldaðar í örbylgjuofni þangað til það er hægt að skófla maukið úr þeim – ca 15 mín kannski
 2. Hvítu baunirnar maukaðar í matvinnsluvél
 3. Rauðlaukur, hvítlaukur og sallatslaukur maukaður líka í matvinnsluvél
 4. Eggjum, möndlumjöli og kryddi bætt útí
 5. Steikt á pönnu þangað til gullinbrún
 6. Buffin bökuð í ofni í ca 15 mín, þar sem þau eru mjög mjúk er gott að baka þau örlítið og gera þau aðeins stökkari.

Myntu- og gúrkusósan er búin til úr tyrkneskri jógúrt, sýrðum rjóma, rifinni gúrku, ferskri myntu, og svo kryddað með salti og pipar.

20130612-193744.jpg

Grillað eggaldin og halloumi með fersku salsa og kryddsmjöri

Þessi réttur er fullur af tilraunastarfsemi hjá mér, þar sem ég er að prófa mat sem ég hef ekki smakkað áður og prófa að gera eitthvað nýtt. Ég hef neflilega aldrei borðað halloumi ost af mikilli alvöru, þeas. ég hef bara smá smakkað en aldrei eldað heilan matrétt úr honum. Og svo hef ég aldrei búið til smjör áður sjálf, skil ekki af hverju, þetta er með því einfaldara sem maður getur gert í eldhúsinu. Uppskriftina sá ég hér, en eins og vanalega fylgi ég sjaldan því sem stendur. Halloumi ostur verður klárlega eldaður aftur hér til að reyna borða fleiri grænmetisrétti og það verður pottþétt gert aftur smjör, svo ég mundi segja að þetta væri mjög vel lukkaður tilraunaréttur hjá mér.

20130515-211541.jpg

Kryddsmjör

 • 2-3 dl rjómi
 • 1 stórt hvítlauksrif, fínhakkað
 • nokkrir stilkar af graslauk eða einhverju öðru fersku kryddi, t.d. steinselja, fínhakkað
 • salt, ef maður vill
 1. Þeyta rjóman nógu lengi þangað til að það myndast smjörkúlur og vökvin skilur sig frá smjörinu. Vökvanum hellt af.
 2. Hvítlauk og graslauk blandað saman við. smakkað til með salti.

Úr þessu kemur ca 1 dl smjör.

Grillað eggaldin og halloumi með fersku salsa (fyrir ca 4 svanga)

 • 4 eggaldin
 • 600 gr halloumi
 • 100 gr sólþurrkaðir tómatar
 • 4 tómatar
 • 2 rauðlaukar
 • 1 ferna svartar baunir (ca 400 gr)
 • salt og pipar
 • Ólífuolía og hvítt balsamedik eða hvítvínsedik
 • Ferskt basiklika ef maður á
 • Spínat sem meðlæti
 1. Eggaldin eru skorin í sneiðar og saltaðar á báðum hliðum og látnar standa í 30 mín. Það verður til þess að þau svitna svo það verður minni vökvi í þeim, getið séð svitaperlurnar á myndinni fyrir neðan. (Má sleppa þessu skrefi ef maður er að flýta sér)
 2. Á meðan eru ferska salsan útbúin, tómatar, rauðlaukaur og sólþurrkaðir tómatar er hakkað og sett í skál. Blandað saman við svörtu baunirnar, kryddað með salti og pipar og helt örlítið af ólífuolíu og balsamediki.
 3. Eggaldinin skoluð og þurrkuð með pappír eða viskustykki. Ég fyllti ofnskúffu með næstum öllum sneiðunum og steikti síðan í umferðum. Sneiðarnar fengu að vera inní ofni áður en þær urðu grillaðar á grillpönnunni og svo setti ég þær aftur til baka þegar ég var búin að grilla. Grillpannan er bara ekki nógu stór fyrir allar þessar sneiðar í einu 🙂
 4. Halloumi osturinn skorin í ca 0.5 cm þykkar sneiðar og penslaðar með olíu áður en ég steikti þær á grillpönnunni í ca 3-4 mín á hverri hlið.
 5. Öllu raðað saman á disk, fyrst spínat, svo eggaldin og halloumi ostur til skiptis og salsa yfir eða á milli eða hvernig sem manni henntar. Svo er góðri kryddsmjörkúlu skellt ofaná sem bráðnar yfir allan réttinn.

20130515-211601.jpg

20130515-211610.jpg

Palak Paneer – Indverskur spínatréttur með paneer osti

Þessi réttur er hluti af grænmitisréttarátakinu mínu, en ég get allavega státað mig af því að eiga heiðurinn af öllu grænmetisréttunum á þessari síðu 🙂 Guðríður, ekkert að gerast hjá þér í þessum málum ? Og þetta er líka fyrsta tilraun mín til að búa til ost, sem ég held að hafi bara heppnast ágætlega. Þið þekkið þetta kannski að maður fer út að borða á einhverjum indverskum stað og maturinn er ótrúlega góður og svo ætlar maður heim að gera eitthvað svipað en það verður bara aldrei eins gott og það sem maður fékk á veitingastaðnum? Og þetta Chicken tikka masala í krukku er bara ekki það sem maður er að leita eftir finnst mér. En í þetta skipti fannst mér ég ná að tækla þetta því ég var mjög sátt við þennan grænmetisrétt og hefði hann örugglega geta sómað sér á hvaða indverska veitingastað sem er…vonandi 🙂 Ég studdist við þessa uppskrift en get ekki sagt að ég hafi fylgt henni neitt sérstaklega vel.
20130505-123601.jpg

Paneer ostur

 • 3 lítrar feit mjólk (3% eða meira)
 • 0,5-1 dl sítrónusafi
 • Ostagrisja/taubleyja eða fataþvottapoki, það var það eina sem var til í minni búð, en virkaði bara mjög vel.
 1. Hellið mjólkinni í þykkbotna pott, ég var bara með venjulegan stálpott, bara muna að hræra vel og oft. Hitið að suðu.
 2. Hellið sítrónusafanum útí í smá skömmtum, byrjið með 0,5 dl og svo má bæta meiru við. Bíðið þangað til að mjólkin byrjar að kekkjast, þá er þetta að virka.
 3. Hellið kekkjuðu mjólkinni í ostagrisjuna og hafið sigti undir og skál undir sigtinu til að taka við afgangsvökvanum.
 4. Reynið að pressa eins mikið af vökvanum úr ostinum og látið eitthvað þungt ofaná til að pressa ennþá meira. Ég var með mortel ofaná sem virkar mjög vel sem lóð. Látið standa í amk hálftíma en má standa í nokkrar klukkutíma. Ég gerði ostin deginum áður en ég bjó til spínatréttinn en það má vel gera þetta samdægurs.

Ég fékk uþb 400 gr úr 3 lítrum af mjólk, ég hefði líklega átt að setja meira sítrónusafa en ég setti bara 0,5 dl. Google segir mér að maður ætti að fá uþb 600 gr úr 3 lítrum af mjólk svo ég hefði átt að setja meiri sítrónusafa, átti bara ekki meira og fyrsta tilraun, maður lærir af reynslunni

Palak Paneer

 • 600 gr frosið spínat eða ferskt
 • Paneer osturinn, 400-600 gr.
 • 2-4 tómatar
 • ca 1 þumalslengd af fersku engiferi
 • 1 tsk kóríander duft
 • 1/2 tsk gurkmeja
 • 1/2 tsk chili, má nota ferskt chili og krydda meira ef maður vill hafa þetta sterkara
 • 1 tsk spiskummin
 • 1 tsk garam masala
 • 1/2 tsk salt eða smakka til
 • 2 tsk heilhveiti
 • 1 dl rjómi
 1. Ef notað er frosið spínat má setja það aðeins í blandarann til að fá mýkri áferð á það.
 2. Tómatar og engifer mixað í matvinnsluvél í mauk
 3. Kóríander ,gurkmeja, chili, spiskummin og garam masala blandað í engifer og tómatmaukið.
 4. Blandið heilhveiti og rjómanum saman og látið til hliðar
 5. Osturinn skorinn í bita og steiktur á pönnu með nóg af olíu. Þegar osturinn er orðin gullinbrúnn er hann settur á eldhúspappír til að þerra olíuna af ostinum.
 6. Hellið tómat og engifer og kryddmaukinu á pönnuna og látið malla í 5-10 mín.
 7. Bætið spínatinu útí pönnuna og málið malla aftur í 10 mín með lok á pönnunni.
 8. Bætið rjóma og hveitiblöndunni útí og látið aftur malla í 5 mín.
 9. Loks er gullinbrúna paneer ostinum bætt útí, hrærið honum varlega saman við spínatið.

20130505-131731.jpg

Við vorum með heilkorna hrísgrjón með þessu og örlítið af tyrkneskri jógúrt. Þessi réttur er nú ekkert sérstakt augnayndi, en maður verður nú að taka myndir af matnum til að sjá hvernig hann lítur út. Ég get lofað ykkur að hann bragðast mun betur en hann lítur út.