Amerískar pönnukökur

ponnukokurMér fannst einhver algjör skandall að það væri engin uppskrift af amerískum pönnukökum á síðunni, pínu vandró. Þannig að ég auðvitað neyddist til þess að baka svoleiðis í morgun. Þessi uppskrft er svaka fluffí og lyftist vel sem er einmitt það sem ég er að leita eftir þegar ég baka svona gúrmé. Ég er með tvær tegundir af “áleggi” í þetta skiptið, febrúar pönnukökurnar kannski full brúnar og líflausar, mér finnst bara berin sem eru í búðinum núna svo steralega og bragðlaus svo að það kemur bara seinna 🙂

 • 175 g hveiti
 • 3 1/2 tsk lyftiduft
 • 1 tsk salt
 • 1 msk  sykur
 • 3 dl mjólk
 • 1 egg
 • 40 g smjör, brætt

Blandið saman hveiti, lyftidufti, salti og sykri í stórri skál. Blandið mjólk, eggjum og smjöri út í og hrærið vel saman. Ég nota svo könnu sem er hægt að hella úr til að hella bara beint á pönnuna.

Ég er svo með ofan á peru sem ég setti í pott með ca msk af smjöri og msk af púðursykri ásamt smá kanil, þetta læt ég malla bara á meðan ég steiki pönnsurnar. Setti svo möndluflögur ofan á. Næst prófa ég kannski að setja bara döðlur í staðin fyrir púðursykur. Það er bara að láta hugmyndaflugið ráða.

 

Advertisements

Morgunbollur

IMG_0082Nýtt ár með matarlyst! Nú förum við að blogga meira Kristín, er það ekki?
Nú þegar ég virðist vera í einhverjum æfingabúðum til þess að vakna snemma, þá er tilvalið að henda í bollur svona um hálf níu leytið á laugardögum. Þessar hefur mamma gert í mörg ár og eru alltaf jafn góðar. Loksins tók ég mig til og hætti að hafa uppskriftina á pappír sem ég hef skrifað upp eftir mömmu gegnum símann líklegaog set uppskriftina inn hérna.

Morgunbollur

 • 12 dl hveiti
 • 3 dl hveitiklíð
 • 1 msk sykur
 • 1 tsk salt
 • 1 bréf þurrger (eða ca 3 tsk)
 • 6 dl volg undanrenna (ég blanda bara mjólk og vatni saman)
 • 2 msk olía
 • mjólk til að pensla og hörfræ ofan á
 1. Velgjið undanrennuna í potti og hellið í hrærivélaskálina. Bætið þurrgerinu útí og látið standa í 1-2 mín.
 2. Blandið þá öllum þurrefnunum og olíunni í en setjið ekki allt hveitið útí, það getur verið gott að geyma aðeins til þess að hnoða uppí eftir hefunina, það er betra að hafa degið aðeins blautara þegar það hefast.
 3. Hnoðið degiið þangað til það er passlega blautt til þess að taka úr skálini og setjið þá á hveitistráð borðið og látið hefast í 20 – 30 mín.
 4. Hitið ofninn í ca 180°C og blástur.
 5. Mótið bollur og setjið á plötu. Látið hefast í ca 10 – 15 mín í viðbót á plötunni.
 6. Penslið bollurnar með mjólk og skreytið með hörfræjum og bakið í ca 10 mín, fer eftir stærðinni á bollunum.

 

Lúxustýpan af French toast

beikon blogg

Þar sem að loksins er ég byrjuð að fá matarlystina aftur – 9 vikum seinna – húrra! þá leyfi ég mér eiginlega bara að borða það sem ég viil. Það ættu helst allar helgar að byrja svona finnst mér 🙂 Omnom! Ég fékk hugmyndina í matreiðsluþætti á RÚV þar sem það var einhver agalega myndarlegur maður að gera svona svipað, reyndar splæsti hann í kókosmjöl líka en ég lét það vera í þetta skiptið.

Lúxustýpan af French toast 

 • 3 brauðsneiðar samlokubrauð (fyrir 2)
 • 2 egg
 • 1 msk púðursykur
 • 1/2 tsk kanill
 • Smjör til að steikja
 • Flórsykur til að skreyta

Hrærið eggið með gaffli og blandið við púðursykri og kanil. Dýfið brauðinu uppúr eggjablöndunni og steikið á pönnu með smjöri. 

Mæli eindregið með því að bera þetta fram með stökku beikoni, ljúfum kaffibolla/Chai latte (helst með broskalli) og appelsínusafa. 

Pottabrauð

WP_20140112_001Ég varð alveg jafn hissa og þið, vá hvað þetta er fallegt brauð hugsaði ég. Þetta er eins og úr bakaríi!! Þetta brauð hefur gengið undir einhverjum nöfnum, New York Times brauð eða pottabrauð hefur það verið kallað líka. Það er dásamlega gott og ég er handviss um að ég eigi eftir að baka það ansi oft í mismunandi útgáfum bara. Trikkið er að láta brauðið hefast heillengi alveg 12-24 tíma jafnvel. Blanda deginu saman um kvöld og svo bakarðu það bara daginn eftir.

 • 3 bollar hveiti (ég nota bláa kornax hveitið, þetta próteinríka í brauðbakstur)
 • 1 1/2 bolli heilhveiti
 • 1/3 tsk þurrger
 • 1 3/4 tsk salt
 • 2 bollar vatn við 37°C

Hrærið öllu saman í skál, degið á að vera ansi blautt. Lokið skálinni (ef það er til lok) eða setjið plastfilmu yfir. Látið hefast í 12-24 tíma við stofuhita. Ég hef prófað bæði 12 og 24 tíma og það virkaði bæði vel. Finnst það bara fara soldið eftir hverni tímaramminn er hjá manni 🙂 Þið prófið ykkur bara áfram. Brauðið er svo bakað í potti sem má fara inní ofn. Potturinn er hitaður í ofninum við 230°C. Deginu er svo hellt í heitann pottinn og látið bakast með lokinu á í ca 35-40 mín áfram við 230°C. Lokið er þá tekið af og brauðið brúnast aðeins í 5-10 mín eða þangað til skorpan er orðin falleg á litinn. Ég fer svo pottþétt að prófa mig áfram og blanda hveiti og rúgmjöli og/eða bæta við kornum eða kúmeni, eða væri líka flott að seta jafnvel rósmarín og hvítlauk ofan á og bjóða með súpum eða salötum. Möguleikarnir eru endalausir!

 

Ostaskonsur

Þessar eru dásamlegar á morgunverðar eða kaffiborðið. Það er þá hægt að hafa þær misstórar eftir séróskum fjölskyldumeðlima líka. Mér finnst betra að hafa heilhveiti í þeim, en það má líka alveg hafa bara hveiti, það finnur hver fyrir sig 🙂

 • 3 dl hveiti
 • 3 dl heilhveiti
 • 100 g smjör við stofuhita
 • 2 tsk lyftiduft
 • 1 1/2 tsk salt
 • 150 g rifinn cheddar
 • 2 dl mjólk
 1. Hitið ofninn í 225°C
 2. Myljið saman með höndunum smjöri og hveiti.
 3. Blandið svo restinni að innihaldefnunum saman við, ég mæli með því að nota hendurnar, það er langbest að hnoða þetta þannig.
 4. Fletjið degið út í ca 1,5 cm þykka köku.
 5. Skerið svo degið í skonsurnar, ég gerði tígla, það má líka skera út hringi eða bara ferkanta.
 6. Penslið með eggi og bakið í ofni við 10-15 mín eða þangað til gullinbrúnar.

Skinkuhorn

WP_20130731_019Það er búið að vera aðeins minna lkl í sumarfríinu. Ég læt þá bara aðra borða þetta því mér finnst svo rosalega gaman að baka. Hér er uppskriftin af skinkuhornum frá mömmu sem að eru barasta alveg dásamleg og alltaf jafn góð. Ég bakaði þetta fyrir ferðina á Látra þar sem þau kláruðust á mettíma held ég.

 • 100 g smjör
 • 5 dl mjólk
 • 3-4 tsk þurrger
 • 60 g sykur
 • 1/2 tsk salt
 • 900 g hveiti (ég notaði 600 g heilhveiti á móti 300 af hveiti)
 • Fylling: Rjómaostur, skinka, ferskur graslaukur blandað saman
 1. Smjör er brætt í potti og mjólkinni bætt útí smjörið langað til að mjólkin er við ca 37°C
 2. Þurrgerið dreift ofan á mjólkursmjör blönduna og látið bíða í ca 1-2 mín.
 3. Sykur og salt og nánast allt hveitið hnoðað saman við.
 4. Látið hefast í allavega 30-40 mín.
 5. Skiptið deginu í 8 parta og breiðið út kringlótta köku, sem er skorin í 8 parta eins og pizza. Fyllingunni komið fyrir og hornunum rúllað upp.
 6. Látið hefast á bökunarplötunni í ca 20 mín áður en bakað.
 7. Penslað með eggi og birkifræjum/sesamfræjum stráð ofan á.
 8. Bakið í 10-15 mín við 175°C á blæstri eða þangað til hornin eru gullinbrún og falleg.

Kryddbrauð

kryddbrauð

Þetta brauð kemur líka frá facebook síðunni Matarbók Lilju Low carb. Einfalt brauð og svo ofboðslega gott að eiga til. Ég reyndar breytti henni aðeins, en kemur út á það sama. Flott að setja aðeins heslihnetuflögur ofan á til að skreyta.

 • 1 dl hörfræmjöl – flax seed meal (fæst í Kosti)
 • 0,75 dl kókoshveiti
 • 0,25 dl venjulegt kókosmjöl
 • 1/2 dl erythritol
 • 5 msk heslihnetuflögur
 • tæp 1/2 tsk salt
 • 2 tsk lyftiduft
 • 1,5 tsk kanill
 • 1,5 tsk kakó
 • 1,5 tsk negull
 • 2 dl grísk jógúrt
 • 4 egg
 1. Öllu blandað sama og komið fyrir í ca 22×10 cm brauðformi, ég klæddi það með bökunarpappír.
 2. Bakið við 175°C í ca 30-50 mín eftir stærðinni á brauðforminu.