Dal – indverskur blómkálsréttur

Þessi uppskrift er algjörlega í átakinu mínu, að “reglulega lesa í gegnum matreiðslubækurnar mínar og elda eitthvað uppúr þeim”. Og sjálfsögðu að reyna elda meiri grænmetisrétti. Uppskriftin er úr bókinni Vegetarian Everyday, sem er ótrúlega falleg bók eftir fólkið sem er með bloggsíðuna Green kitchen stories sem er líka mjög fallegt og skemmtilegt blogg, mæli eindreigið með því. En þar sem ég átti ekki öll kryddin sem voru í uppskriftinni var ég aðeins að skálda í eyðurnar með svipuðum kryddum, en nánast það sama. Ekki láta langan lista í innihaldslýsingunni aftra ykkur af því að elda þennan rétt, þetta eru bara fullt af kryddum sem er auðvelt að henda saman og ofaní pott.

Dal – indverskur blómkálsréttur (stór uppskrift fyrir ca 6-8)

 • 1 tsk engifer
 • 1 tsk garam masala
 • 4 tsk karrý
 • 1 tsk cayanne pipar
 • 1 tsk sinnepsfræ
 • 1 tsk kardimommur
 • 3-5 msk aprikósusulta (eða ca 12 stk þurrkaðar aprikósur saxaðar)
 • 30 gr smjör til að steikja kryddin í
 • 2 laukar
 • 6 hvítlauksrif
 • 2 meðalstórir blómkálshausar
 • 4 gulrætur
 • 2 dósir kókosmjólk
 • 1-2  dósir vatn (tómu dósirnar af kókosmjólk notaðar sem mælieining)
 • 3 dl rauðar linsur
 • 1 stòr lùka frosið spínat (mà líka nota ferskt, en þà ca þrjàr lúkur eða meira)
 1. Ef maður ætlar að hafa hrísgrjón með, er gott að byrja sjóða þau fyrst.
 2. Kryddin öll sett í mortel og möluð, aðallega sinnepsfræin. Ef maður á ekki mortel má alveg sleppa því og blanda þeim bara öllum saman og steikja í potti með smjörinu. Steikt í stutta stund þar til kryddin eru orðin gullinbrún og góð lykt komin í eldhúsið. Smá vatn sett útí ef það hitnar of mikið í kryddunum svo þau brenni ekki við.
 3. Laukur og hvítlaukur saxað og bætt útí, ásamt aprikósusultunni, má malla smá í nokkrar mínútur
 4. Blómkál brotið í knippi/skorið niður ásamt gulrótunum. Blómkál, gulrætur, rauðar linsur, kókosmjólk og vatn sett útí og látið sjóða í ca 15-20 mínútur

Ég var svo með svört hrísgrjón með, blandaði reyndar heilhveiti og svörtu saman en þau urðu öll svört 🙂

Advertisements

Raggmunkar – sænskur klassíker

Svíarnir eru dáldið fyndnir þegar kemur að þeirra klassísku réttum. Á t.d. öllum hádegisveitingastöðum í Svíþjóð sem eru með tiltölulega klassíska sænska rétti þá er ALLTAF á fimmtudögum pönnukökur og baunasúpa, ekki svona bara annan hvern eða stundum, heldur ALLTAF sama á hverjum fimmtudegi. Og svona er þetta með marga rétti, í mörgum fjölskyldum tíðkast líka taco föstudagar og fleira í þeim dúr. Nú en að Raggmunkunum, sem er næstum eins og pönnukaka. Við Martin fengum okkur raggmunka í vor á Östra Station, sem er yndislega skemmtilegur veitingastaður, algjörlega með upprunanlegum innréttingum frá ca 1930 og er bara með sænska klassíska matrétti. Svo þarna á maður algjörlega að prófa sænska klassíska rétti, og mikið rétt raggmunkarnir þeirra eru sjúklega góðir, mæli eindreigið með því að prófa. Ég gerði heiðarlega tilraun til að herma eftir þeirra raggmunkum, veit ekki hvort að mér tókst nógu vel til, þarf klárlega að vera með fläsk næst, ekki bara beikon en það dugar. Uppskriftin er komin úr einni af fáum uppskriftabókum sem Martin á á þessu heimili, eða Rutiga kokboken. Með þeim á að vera s.s. steikt fläsk, eða þykkara beikon og svo lingon ber að sjálfsögðu.

Raggmunkar – uppskrift fyrir ca 4

 • 2 dl hveiti eða heilhveiti
 • 1 egg
 • 5 dl mjólk
 • 1 tsk salt
 • 8 meðalstórar kartöflur
 • Smör til að steikja uppúr
 1. Hveiti, egg, salt og ca helmingurinn af mjólkinni blandað saman þangað til gott kekkjalaust deig er komið
 2. Restinni af mjólkinni bætt útí
 3. Kartöflurnar skrælaðar og rifnar beint útí.  Mér skilst að maður geti líka bara skellt öllu í matvinnsluvél og hrært, get prófað það næst kannski.
 4. Steikt à pönnu eins og pönnukökur þar til gullinbrúnt.
 5. Borið fram með beikoni og lingonberjum sem voru frosin en létt hituð í örbylgjuofni með má sykri á.

Kanil pönnuletta fyllt með kotasælu og eplum

Mikið er ég sátt með þetta nafn! Hahaha, þetta er ekki pönnukaka og ekki heldur ommeletta heldur pönnuletta! Sá þessa uppskrift seinustu helgi þegar ég var í heimsókn hjá Láru Maríu og Elínu Birnu í Gautaborg í matreiðslubók sem ég fletti í. Nú veit ég ekkert hvort ég man uppskriftina rétt en slétt sama, mér finnst mín útgáfa mjög góð!

Kanil pönnuletta (1 stk)

 • 1 egg
 • ca 2 msk mjólk, möndlumjólk …eða bara einhver mjólk
 • smá salt
 • smá kanill

Fylling – kotasæla og epli

 1. Ég hrærði þetta bara saman í bolla og steikti á pönnu með smá smjöri og snéri við eins og pönnuköku.
 2. Ég gerði svo tvær svona handa mér í morgunmat. Ca 2 msk kotasæla í hverja pönnulettu og hálft epli saman á báðar, svo er þessu rúllað upp eins og þessum klassísku íslensku pönnukökum með sykri!

IMG_0494

Möndlukúlur

Mig langaði bara í eitthvað smotterí til að jappla á með kaffinu og þessar eru fínar að eiga í frysti og enga stund að gera þessar á meðan ég talaði við Guðríði í síman. Maður kemst víst ekki nær því að elda saman en í gegnum síma þegar maður býr í sitthvoru landinu 🙂

 • 1,5 dl möndlur
 • 1/2 dl kakósmjör bætt
 • 0,7 dl kakó + kakó til að rúlla uppúr
 • 8 ferskar döðlur
 • 1/2 dl haframjöl
 1. Möndlurnar muldar í lítilli matvinnsluvél
 2. Bræddu kakósmjörinu bætt útí ásamt kakóinu og döðlunum og malað áfram
 3. Haframjölinu bætt við í lokin og mixað smá
 4. Kúlur mótaðar og rúllað uppúr kakó, má líka vel rúlla uppúr kókosmjöli eða hnetukurli.
 5. Geymast best í frysti eða kæli

IMG_0496

Ríkir riddarar

Ég held að það sé bara best að byrja þessa á færslu á einni staðhæfingu: Allt með kanil er gott, og þar af leiðandi allt með kanilsykri líka.

Það var einn vinnufélagi minn sem sagði mér frá þessari snilld sem ríkir riddarar eru. Nú þar sem mér finnst ekkert leiðinlegt að baka og heldur ekkert leiðinlegt að smakka gott sætabrauð hjá bakaríum, þá getur verið að græðgin taki völdin og ég baka of mikið eða kaupi of mikið. Þá lendi ég stundum í því að dagin eftir að kaupin/baksturinn er gerður eru þessi sætabrauð ekki nærri því eins góð og fyrri daginn. Hver kannast ekki við þurra bollu, hálfétna eins og þessa?

IMG_0482

Hvað gerir maður þá? Og tilhvers að vera troða í sig þurri bollu þegar maður getur gert þessa snilld. Þá koma ríkir riddarar til sögunnar. Það kannast kannski ekki allir við þetta, heldur er bara allt borðað, já já ok, en ég mæli þá með því að kaupa auka bollu eða kanillengju til að skella í ríka riddara dagin eftir eða sama dag 🙂 Og þetta er svo auðvelt og svakalega gott!

Ríkir riddarar

 • Kanelsnúður/kanillengja eða álíka, hér er ég með kardimommubollu
 • Egg
 • Mjólk
 • Kanill
 • Sykur
 • Smjör
 1. Skerið bolluna/lengjuna í sneiðar
 2. Pískið eggið saman við ca 2 msk mjólk/per egg ef maður er að gera meira
 3. Bræðið nóg af smjöri á pönnu
 4. Veltið sætabrauðsneiðunum uppúr eggjahrærunni og steikið uppúr smjörinu
 5. Undirbúið kanilsykurinn, gæti ekki verið einfaldara: ca 1 tsk kanil á móti 2 msk sykri á disk og blandið saman og breiðið úr.
 6. Þegar sætabrauðssneiðarnar eru gullinbrúnar úr smjörinu og egginu mega þær aðeins kólna, bara smá áður en þeim er velt uppúr kanilsykrinum.

Berið fram með þeyttum rjóma eða ís, ég var líka með kanilsteiktar eplasneiðar með. Vel hægt að skella þeim á pönnuna samtímis með sætabrauðinu.

IMG_0484

Bláberjapæ með heimatilbúnu grófu marsipani

Guðríður byrjaði einn laugardagsmorgun um að biðja mig/og/eða Tinnu um pæuppskrift af því hún var svo sjúk í að borða eitthvað heitt með vanillusósu. Þessi ósk snérist fljótlega upp í smá bökunarmanínu hjá okkur öllum, þar sem Guðríður skelliti í eplpæjið hérna á undan og Tinna gerði einhverjskonar bláberjapæ. Ég hafði því miður ekki tíma í að baka þennan dag en viku seinna tók ég mig saman í andlitinu og gerði þessa bláberjapæ þegar ég átti von á góðum gestum.

Gróft marsipan

 • 100 gr möndlur
 • 1/2 dl sykur
 • 1/2 dl flórsykur
 • nokkrir dropar “Bittermandel” í Svíþjóð eða líklegast möndludropar á Íslandi
 • Lítil eða hálf eggjahvíta
 1. Ef maður ætlar að vera duglegri og gera fínt marsipan á maður að hafa möndlur án hýðis, en ég var löt í þetta skiptið.
 2. Möndlurnar og sykurinn mixað í matvinnsluvél þangað til allt er malað fínt.
 3. Bittermandeldropunum bætt útí ásamt eggjahvítunni og mixað áfram þangað til maður fær rétta áferð.

2015/01/img_0477.jpg

Bláberjapæ

 • 500 gr frosin bláber, eða fersk ef maður býr svo vel
 • 2 msk kartöflumjöl
 • 2 1/2 dl haframjöl
 • Grófa marsipanið (eða 100 gr af venjulegu marsipani)
 • 100 gr smjör
 1. Bláberin og kartöflumjölið blandað saman. (ég klippti bara opin pokan af bláberjunu og setti kartöflumjölið beint útí og hristi aðeins saman). Sett í ofnfast mót
 2. Haframjölinu og smjörinu blandað saman við marsipanið og mulið yfir bláberin.
 3. Bakað við ca 200 gráður þangað til deigið fær smá lit á sig
 4. Berist að sjálfsögðu fram með vanilusósu, rjóma nú eða ís

2015/01/img_0480-0.jpg

Bakað eggaldin með grænmetis og kjúklingabaunasalati

Ég þarf klárlega að fara baka meira eggaldin eins og í þessum rétt, þetta er samt eiginlega svona ísskápa hreinsunarréttur. Hægt að setja allt mögulegt ofaná eggaldinin, svo innihaldið er alls ekkert heilagt, endilega breyta og bæta og nota það sem manni finnst gott og það sem er til.

Bakað eggaldin

 • 3 eggaldin skorin í helminga
 • Ólífuolía
 • Rósmarín
 • Timian
 • Salt og pipar
 1. Eggaldin lögð í ofnfast mót með sárið upp
 2. Ólífuolíu, rósmarín, timian og salti og pipar er blandað saman í skál og gerð smá kryddlögur sem er svo penslaður á eggaldin. Um að gera bara að bæta við ólífuolíu eða kryddum ef að fyrsta blanda var ekki nóg.

Ofaná

 • 1 ferna kjúklingabaunir (ca 400 gr)
 • 1 rauðlaukur
 • 1 græn paprika
 • 2 tómatar
 • ólífur að vild
 • fetaostur
 • sólþurrkaðir tómatar
 1. Rauðlaukur, paprika, tómatar hakkað smátt og öllu blandað saman í skál
 2. Lagt ofaná eggaldinin og bakað þangað til eggaldinin eru mjúk eða í ca 30-40 mín

Borðist með bestu lyst!

 

 

2015/01/img_0432.jpg