Bláberja marsipan múffur

20140530_161016_Android croppedÞað náðist allavega mynd af einni múffu áður en ég sproðrenndi þessu góðgæti ofan í sjálfa mig, om nom

Hugmyndin fæddist eiginlega hjá Ingu sem vinnur með mér sem sagði mér frá lummum sem hún gerði með bláberjum og marsipani. Af því ég var í bökunarstuði þá þurfti ég nauðsynlega að gera eitthvað akkúrat núna! og gat bara ekki beðið eftir að fá uppskriftina af lummunum 😉 Ég notaði bara einhverja grunnuppskrift af degi og bætti svo bláberjum og marsipani útí og þetta er sko geggjað gott!!

 • 190 g hveiti
 • 100 g sykur
 • 1/2 tsk salt
 • 2 tsk lyftiduft
 • 80 ml olía
 • 80 ml mjólk
 • 1 egg
 • ca 70 g bláber, frosin
 • ca 50 g marsipan rifið
 1. Hitið ofninn í 180°C.
 2. Blandið þurrefnunum saman í skál.
 3. Bætið svo olíu, mjólk og eggnu saman við þurrefnin og hrærið.
 4. Blandið rifna marsipaninu útí og loks frosnu bláberjunum. Það er þægilegra að hafa þau frosin svo að þau springi ekki og geri degið fjólublátt, en það er samt alveg jafn gott líka.
 5. Fyllið formin af degi svo að það komi sem stærst kúla ofan á múffurnar, það er svo fallegt 🙂
 6. Bakið í 15 – 20 mín, fer eftir stærðinni á mótunum.
 7. Þegar þær eru aðeins búnar að kólna að ofan stráði ég smá flórsykri ofan á til að skreyta.
Advertisements

Chunkey monkey bollakökur

20140518_160047_AndroidEr ekki komið sumar bara þegar þið sjáið þetta? Mér finnst það allavega. Þær eru líka alveg jafn góðar og þær líta út fyrir að vera, ég lofa! (p.s. það eru ennþá til nokkrar, fyrir þá sem eru fljótir að bjóða sér í heimsókn)

Ég fékk uppskriftina þegar ég var að versla í þessari stórskemmtilegu búð í Stokkhólmi Leilas, þá var henni laumað í pokann hjá mér á leiðinni út 🙂

 • 2 egg
 • 1 1/2 dl sykur
 • 75 g smjör
 • 3/4 dl mjólk
 • 2 1/2 dl hveiti
 • 2 tsk lyftiduft
 • hnífsoddur af salti
 • 1 tsk engifer – malaður
 • 1 tsk kanill – malaður
 • 100 g súkkulaði
 • 100 g valhnetur – mjög gróft skornar
 • 3 bananar (1 maukaður og 2 skornir í bita)
 1. Hitið ofninn í 175°C á blástur
 2. Þeytið egg og sykur saman
 3. Bræðið smjörið, hellið mjólkinni útí smjörið og bætið þessari blöndu svo útíeggjablönduna.
 4. Hveiti, lyftiduft, salt, engifer og kanil er svo varlega blandað saman við degið.
 5. Saxið súkkulaðið og valhneturnar gróft.
 6. Maukið einn banana, skerið hina tvo í bita.
 7. Blandið öllu saman og setjið í form (fyllið formið ca 2/3)
 8. Bakið í miðjum ofni í ca 15-20 mín

Kremið

 • 60 g mjúkt smjör
 • 5 dl flórsykur
 • 1/2 dl kakó
 • 2 tsk vanillusykur
 • 100 g rjómaostur
 • 1 msk sterkt kaffi
 1. Hrærið smjöri, flórsykri, kakó og vanillusykri saman.
 2. Bætið rjómasotinum við og kaffinu í lokin.
 3. Smakkið til að vild 🙂

Ég sprautaði kreminu svo á með Wilton 2D eins og “all the cool kids” gera í dag og skreytti kökurnar svo með kirsuberjum.

 

Marsipankaka með tveimur fyllingum

CAM00108

Þessa gerði ég fyrir hreinsunardaginn í nýju vinnunni minni. Það er sem sagt þannig að allar deildirnar eru í búningum og þemað hjá okkur var fermingarbörn. Ótrúlega skemmtilegur dagur og gaman að sjá hvað allir voru metnaðargjarnir í búningaþemanu. Við fengum reyndar engin verðlaun þetta árið, en það hlýtur að koma næst 🙂 Kakan samanstendur sem sagt af hvítum svampbotnum og tveimur tegundum af fyllingum, eiginlega bara af því að ég gat ekki valið á milli.

Ég bakaði x 4 svampbotna

Svampbotn (ein skúffa)

 • 6 egg
 • 2 dl sykur
 • 1,5 dl hveiti
 • 1,5 dl kartöflumjöl
 • 1,5 tsk lyftiduft

Egg og sykur þeytt saman, þurrefnunum svo blandað saman við varlega. Bakað við 180°C í ca 20 mín.

Á milli botnanna:

 1. Lemoncurd og hindber
 2. Oreo og bananar (Einn pakki oreokex malað í matvinnsluvél og bætt útí rjómann + 1,5 dl flórsykur)

Ég notað ca 0,75 l af þeyttum rjóma  á milli hverrar köku og svo notaði ég hátt í 1 l til þess að smyrja kökuna ofan á, undir marsipanið. Bungurnar á bókinni gerði ég með því að skerna kantana aðeins á hliðunum og skella þeim svo á miðjuna, það hjálpar líka að það er auðvelt að smyrja rjómanum líka þannig til að ýkja lagið á henni. svo er hún auðvitað bara skreytt með bleiku marsipani og súkkulaði.