Pottabrauð

WP_20140112_001Ég varð alveg jafn hissa og þið, vá hvað þetta er fallegt brauð hugsaði ég. Þetta er eins og úr bakaríi!! Þetta brauð hefur gengið undir einhverjum nöfnum, New York Times brauð eða pottabrauð hefur það verið kallað líka. Það er dásamlega gott og ég er handviss um að ég eigi eftir að baka það ansi oft í mismunandi útgáfum bara. Trikkið er að láta brauðið hefast heillengi alveg 12-24 tíma jafnvel. Blanda deginu saman um kvöld og svo bakarðu það bara daginn eftir.

 • 3 bollar hveiti (ég nota bláa kornax hveitið, þetta próteinríka í brauðbakstur)
 • 1 1/2 bolli heilhveiti
 • 1/3 tsk þurrger
 • 1 3/4 tsk salt
 • 2 bollar vatn við 37°C

Hrærið öllu saman í skál, degið á að vera ansi blautt. Lokið skálinni (ef það er til lok) eða setjið plastfilmu yfir. Látið hefast í 12-24 tíma við stofuhita. Ég hef prófað bæði 12 og 24 tíma og það virkaði bæði vel. Finnst það bara fara soldið eftir hverni tímaramminn er hjá manni 🙂 Þið prófið ykkur bara áfram. Brauðið er svo bakað í potti sem má fara inní ofn. Potturinn er hitaður í ofninum við 230°C. Deginu er svo hellt í heitann pottinn og látið bakast með lokinu á í ca 35-40 mín áfram við 230°C. Lokið er þá tekið af og brauðið brúnast aðeins í 5-10 mín eða þangað til skorpan er orðin falleg á litinn. Ég fer svo pottþétt að prófa mig áfram og blanda hveiti og rúgmjöli og/eða bæta við kornum eða kúmeni, eða væri líka flott að seta jafnvel rósmarín og hvítlauk ofan á og bjóða með súpum eða salötum. Möguleikarnir eru endalausir!

 

Advertisements

Gleðilegt ár!

Þessa visku fann ég í bókinni Læknirinn í eldhúsinu, sem að er btw dásamleg bók fyrir þá mataráhugamenn sem eru ekki ennþá búnir að skoða hana.

“Eitt af því ljúfasta við lífið er það að við verðum reglulega að leggja til hliðar all okkar amstur og beina athyglinni að því einu að borða.” Luciano Pavarotti

Þetta munu verða orðin fyrir árið 2014 held ég bara. Gleðilegt ár allir saman!

Bananakaka með súkkulaðitopp

WP_20131225_003Þessi er úr smiðju Gestgjafans sem að bara getur varla klikkað. Svo fékk ég líka þennan fína kökudisk í jólagjöf sem er svo fallegur á borðinu. Þessi er svo einföld og góð sunnudagskaka þegar það eru til bananar sem að eru alveg að gefa upp öndina.

 • 120 g smjör
 • 100 g púðursykur
 • 2 egg
 • 200 g hveiti
 • 1/2 tsk lyftiduft
 • 1/2 tsk matarsódi
 • 2 tsk vanillusykur
 • 3 – 4 bananar, vigt samtals um 300 g án hýðis

Kanilsykursmulningur ofan á

 • 30 g púðursykur
 • 40 g hveiti
 • 40 g smjör við stofuhita
 • 75 g valhnetur
 • 1/2 tsk kanill
 • 60-80 g súkkulaði (má blanda líka hvítu súkkulaði við)
 1. Hitið ofninn í 180°C
 2. Hrærið smjör og púðursykur saman þar til blandan er létt og ljós. Bætið eggjum útí og hrærið vel saman.
 3. Blandið þá þurrefnunum sem og stöppuðum bönununum saman við og hrærið vel saman.
 4. Degið sett í form og kanilsykursmulningurinn útbúinn.
 5. Kanilsykursmulningur: Blandið öllu vel saman í skál.
 6. Myljið kanilsykursmulningin ofan á kökuna og bakið í miðjum ofni í 30 – 40 mín.

 

Jóla og áramóta ísinn

jólaísÉg elska ís, bara svo það sé alveg á tæru, svo að mér fannst ég eiginlega þurfa að eiga ísskál, eða þið vitið svona ísgerðarvél. Ég nebblilega hef svolitla andúð á svona tvífrosnum ís eða ís með svona kristöllum í eis og svo margir heimagerðir ísar verða oft (ekki samt hætta að bjóða mér ís, plís). Ísástin er nebblilega ekki þannig að hún eigi við allan ís, heldur bara vel valinn ís. Í sumar varð ég svo heppin að eignast slíka skál sem frystir ís og er tengd við Kitchen Aid vélina mína, viti menn… líf mitt er búið að breytast eftir að ég fór að gera minn eigin ís. Nú er ekki aftur snúið, ísbúðin Valdís má fara vara sig 🙂

Þannig að ég heimtaði auðvitað að fá að gera ís í eftirrétt á jólunum. Það varð reyndar nóg eftir svo að þetta varð líka áramótaís. Með ísskálinnu fylgdu nebblilega nokkrar uppskriftir sem eru bara svona líka rosalega góðar. Uppskriftirnar eru þó miðaðar við rjómategundir sem ekki fást hér á landi, þeytirjómi á til dæmis að vera 30% en okkar rjómi er 36%. Þannig að ég læt með hvernig ég blandaði rjómanum svona sirca, en þetta er vissulega ekki alveg heilagt.

Súkkulaðiís

 • 4,5 dl þeytirjómi (30%) ( 3,5 dl rjómi, 1 dl mjólk)
 • 30 g 70 % súkkulaði
 • 30 g suðusúkkulaði
 • 4,5 dl léttrjómi (10%) (2 dl rjómi 2,5 dl mjólk)
 • 230 g sykur
 • 40 g ósætt kakó
 • 8 eggjarauður
 • 1 tsk vanilla
 • ögn af salti
 • fílakaramellur og smá rjómi til að þynna þær
 1. 1,2 dl af þeytirjómanum er hitað í potti með báðum tegundum af súkkulaði í litlum potti þangað til súkkulaðið er alveg bráðnað og vel uppleyst. Takið af hitanum, setjið til hliðar.
 2. Léttrjóminn er hitaður í skaftpotti þar til að hann er orðinn mjög heitur en sýður ekki. Hrærið oft. Takið svo af hitanum og setjið til hliðar.
 3. Sykur og kakóblandað saman í lítilli skál. Eggjarauður eru þeyttar á hraða 2 í hrærivélaskálinni og sykur kakó blöndunni bætt útí smátt og smátt.
 4. Súkkulaðiblöndunni bætt útí hrærivélaskálina smátt og smátt þangað til að það er vel blandað saman við.
 5. Þá er Léttjómanum bætt útí einnig í smáum skömmtum þangað til að allt er blandað vel saman.
 6. Súkkulaðiblandan er þá öll færð yfir í skaftpott og hituð þangað til að rýkur úr blöndinnu, athugið að hún á ekki að sjóða. Takið af hitanum þegar orðin nógu heit og færið í stóra skál þar sem á að kæla ísinn næstu tíma.
 7. Bætið svo í lokin við 3,3 dl af þeytirjómanum, vanillunni og saltinu.
 8. Kælið blönduna í að minnska kosti 8 tíma.
 9. Blandan er svo sett í ísskálina á hraða 1og blandan er hrærð þangað til óskuðum þéttleika er náð á ísnum.
 10. Ísinn færður í ísbox og þá er var ég búin að bræða fílakaramellur útí smá rjóma og blandaði því saman við ísinn áður en ég frysti hann. Hér má líka setja hvað sem hugann girnist, súkkulaðibita, lakkrísbita, hrískúlur eða bara hvað sem ykkur langar í.
 11. Njótið!

Karamellu og pekanhnetuís

 • 8,5 dl nýmjólk
 • 1 dós niðursoðin mjólk (þurfti að búa til sjálf)
 • 100 ml karamellusósa (Ég notaði frá Rikku)
 • 1 pakki vanillubúðingur (Royal)
 • 1 tsk vanilla
 • 50 – 100 g grófsaxaðar pecanhnetur

Heimatilbúin niðursoðin mjólk: Ég fann sem sagt hvergi á landinu niðursoðna mjólk, þannig að ég bara bjó til hana sjálf, það var lítið mál, þurfti bara að vera heima við í ca 2 tíma. Sjóðið saman 1,5 bolla mjólk og 1/2 bolla sykur, látið þetta sjóða niður þangað til að verður gulleitt og seigara, eða ca 1,5 – 2 tíma. Þá er smjöri bætt útí og 1/2 tsk vanillu.

 1. Öllum hráfenum blandað saman nema pecan hnetunum. Þetta er þeytt vel saman eða þangað til búðingurinn er uppleystur.  Breitt yfir skálina og kælt vandlega að minnsta kosti í 6 tíma
 2. Blandan er svo sett í ísskálina á hraða 1 og blandan er hrærð þangað til óskuðum þéttleika er náð á ísnum.
 3. Þegar blöndunni er komið fyrir í ísboxinu drussaði ég pecan hnetunum og smá auka karamellusósu yfir nokkrum sinnum á milli laga og svo í lokin svo til að hafa þetta soldið fallegt.