Ostaskonsur

Þessar eru dásamlegar á morgunverðar eða kaffiborðið. Það er þá hægt að hafa þær misstórar eftir séróskum fjölskyldumeðlima líka. Mér finnst betra að hafa heilhveiti í þeim, en það má líka alveg hafa bara hveiti, það finnur hver fyrir sig 🙂

 • 3 dl hveiti
 • 3 dl heilhveiti
 • 100 g smjör við stofuhita
 • 2 tsk lyftiduft
 • 1 1/2 tsk salt
 • 150 g rifinn cheddar
 • 2 dl mjólk
 1. Hitið ofninn í 225°C
 2. Myljið saman með höndunum smjöri og hveiti.
 3. Blandið svo restinni að innihaldefnunum saman við, ég mæli með því að nota hendurnar, það er langbest að hnoða þetta þannig.
 4. Fletjið degið út í ca 1,5 cm þykka köku.
 5. Skerið svo degið í skonsurnar, ég gerði tígla, það má líka skera út hringi eða bara ferkanta.
 6. Penslið með eggi og bakið í ofni við 10-15 mín eða þangað til gullinbrúnar.
Advertisements

Súkkulaði babka

babkaVarúð soldið puð hérna á ferðinni, en ofboðslega mikið þess virði, það er að segja fyrir þá sem finnst vínabrauð/súkkulaði/sykur/kanill eða allt þetta gott. Ég þurfti fyrst að fletta uppá því hvað babka er sjá hérna bara svona til þess að geta deilt því með ykkur. Við erum ekki bara að baka og elda mat hérna, líka smá fræðsla 🙂 Uppskrftina fékk ég frá samstarfskonu sem var vön að gefa þetta með jólagjöfum, þá má geyma babkað í frysti í allt að mánuð áður en að það er bakað svo að það er tilvalið að baka þetta einn góðan aðventusunnudag.

Deig

 • 1 1/2 bolli mjólk – hituð að líkamshita (37°C)
 • 7 g þurrger
 • 150 g sykur
 • 2 egg + 2 eggjarauður
 • 900 g hveiti
 • 1 tsk salt
 • 225 g smjör við stofuhita

Fylling

 • 175 g smjör við stofuhita
 • 900 g suðusúkkulaði fínt saxað
 • 200 g sykur
 • 1 msk kanill

Ofan á toppur

 • 175 g smjör
 • 170 g hveiti
 • 200 g flórsykur
 1. Hitið mjólkina og blandið gerinu saman við, stráið örlítið af sykri út á blönduna og hrærið þar til uppleyst.
 2. Þeytið saman egg og sykur, bætið svo mjólkur ger blöndunni saman við og þeytið saman í smá stund þar til vel blandað.
 3. Í hrærivélaskál ef nánast öllu hveitinu komið fyrir og vökvanum blandað saman við með hnoðaranum. Restinni af hveitinu er svo bætt við ásamt smjörinu. ATH smjörið verður að vera við stofuhita til þess að blandast við degið. Ef það er of kalt hitið þá örlítið í örbylgjuofni. Hnoðið vel saman, í allt að 10 mín. Degið á að vera aðeins klístrað þegar er ýtt á það.
 4. Stráið hveiti á borð og náið deginu út úr skálinni, hnoðið örlífið í höndunum og komið svo deginu fyrir í skál sem hefur verið smurð að innan með smjöri, snúið deginu svo við svo að náist að vera lag af smjöri á öllu deginu.
 5. Látið hefast á vel volgum stað þangað til degið hefur tvöfaldast í stærð, eða allt að klukkutíma. Gerið fyllinguna á meðan.
 6. Fylling: Öllu komið fyrir í matvinnsluvél og blandað vel saman, ég reyndað skipti þessu í tvö holl í mína, þar sem þetta er ansi mikið magn. Mikilvægt hér líka að smjörið sé mjúkt svo að það blandist vel við súkkulaðið. Úr þessu verður þá súkkulaðifylling sem er geymd þangað til að degið er búið að hefast.
 7. Ofan á toppur: Öllu blandað vel saman með höndunum til að úr verði deig mylsna. Þessu er svo kurlað ofan á í lokin.
 8. Nú ætti degið að vera vel hefað. Skiptið því í fjóra bita og fletjið út á borðplötunni í ca 20×40 cm rétthyrning. Súkkulaðifyllingunni er svo dreift yfir degið eins og á fyrstu myndinni, þessu er svo rúllað upp og vafið eins og sýnt er á myndum 2 og 3. Endunum er þá klesst saman svo að fyllingin leki ekki út. Endurtakið með næstu þrjá bita. Skiljið eftir smá af fyllingunni til þess að setja ofan á babkað.
 9. Rúllunni er komið fyrir í formi með bökunarpappír á hliðunum. Degið er þá penslað með eggi,  restinni af súkkulaðifyllingunni mulið ofan á og svo ofan á toppinum bætt við í lokin
 10. Babkað er þá bakað við 170°C í ca 70 mín, passið að ef að verður brúnt að setja álpappír yfir svo að það brenni ekki.
 11. Borðið þegar búið er að kólna.

Ég bakaði bara eitt babka og setti hin í frysti, þannig að þið sem fáið þetta í jólagjöf, þá á að láta standa í amk 5 tíma við stofuhita til að afþýða áður en að það er bakað 🙂

 

Hnetusmjörs nammi

hnetusmjörs

Þetta nammi er í miklu uppá haldi á heimilinu en uppskriftina fékk ég hjá frænku minni fyrir mörgum árum. Þá fylgdi þetta með jólagjöfinni til heimilisins og hefur skipað fastan sess í mínu hjarta síðan þá. Uppskriftin sem ég nota var skrifuð niður á minnismiða sem er búinn að fylgja uppskriftamöppunni minni í nokkur ár. Það er því tími til kominn að uppskriftin fái að nóta sín á rafræni formi þar sem hún mun ekki týnast.

 • 220 g hnetusmjör
 • 2 dl síróp
 • 1 dl sykur
 • 1 dl kókosmjöl
 • 1 tsk vanilludropar
 • 1 L kornflex
 • 300 g suðusúkkulaði

Allt hitað í potti og öllu blandað vel saman. Þessu eru svo klesst á bökunarpappír í ca 30 x 35 cm ferning og kælt. Súkkulaðið er svo brætt og smurt ofan á. Gott er að bæta við örlítið að smjöri í súkkulaðið svo að það springi ekki þegar skorið niður. Það má svo skera nammið í hvaða form sem er, kassa, tígla, hjörtu eða hringi, allt eftir skapi 🙂