Áramòtakakan

Image

Þessi kaka er eiginlega eftirlíking af mjög góðri köku sem ég hef nokkrum sinnum gert úr Gestgjafablaði frá 2010 og er mjög góð. En ég nennti ekki að leita af þeirri uppskrift og gerði eiginlega bara eitthvað. Botninn er uppspuni sem er algjörlega komin frá mér, en kakan sjálf er úr bókinni Eftirréttir Hagkaupa. Skreytingarnar eru svona í áramótastíl og eru bara úr bræddum sykri.

20121231-154825.jpg

Áramótakakan

Botn

 • 100 gr brytjaðar möndlur
 • 100 gr brytjað suðusúkkulaði
 • 2 dl haframjöl
 • 100 gr smjör
 • 2-3 msk kakó

Allt hrært saman í skál þangað til smjörið er vel blandað saman við og síðan sett í smjörpappísklætt smelluform. Bakað í ca 15 min við 180 gr í ofni.

Kakan

 • 250 gr suðusúkkulaði
 • 225 gr smjör
 • 90 gr sykur (ég notaði sykur fyrir sykursjúka, xylo sweet, sem á ekki að hækka blóðsykur eins mikið)
 • 5 egg
 • 1 msk fínmalað spelt

Súkkulaði, smjör og sykur brætt saman í potti. Eggin lausþeytt í ca 1 min. Súkkulaðinu blandað saman við eggin. Speltið er sigtað yfir blönduna. OG já það er mikilvægt að sigta, annars koma kekkir, ég lenti í því. Deiginu er síðan hellt yfir botninn sem var bakaður áður og síðan er kakan bökuð í 25 min á 180. Kakan kæld.

Kremið

 • 100 gr 70 % súkkulaði
 • dash af rjóma
 • 3 msk síróp

Allt sett í pott og brætt og síðan smurt fallega yfir kökuna, skreytingar eru ekki nauðsynlegar er mjög skemmtilegar 🙂

Advertisements

Baileys ís með karamellu pipp og róló

Við systur vorum lengi að velta fyrir okkur hvernig ís við ætluðum að prófa að gera fyrir aðfangadagskvöld. Þessi varð niðurstaðan en við vitum alveg nákvæmlega hvernig við munum gera hann næst með smá breytingum. Í staðin fyrir að setja bita af súkkulaðinu útí, er örugglega betra að bræða súkkulaðið með smá rjóma og blanda því svo við ísinn. Engar myndir náðust af þessum ís, en hann var mjög góður á bragðið. Við studdumst við uppskrift frá Nóa siríus sem má sjá hér.

Baileys ís með karamellu pipp og róló

 • 3 egg
 • 1/2 bolli púðursykur
 • 6 dl rjómi
 • 3-4 msk baileys líkjör
 • 100 gr karamellu pipp
 • 1-2 lengjur róló

Egg og púðursykur sett í glerskál yfir potti með vatni í. Látið vatnið sjóða og haldið á meðalhita. Þeytið eggin og sykurinn yfir vatnsbaðinu þangað til blandan er orðin ljós og froðukennd. Léttþeytið rjóman og blandið líkjörnum saman við og stífþeytið svo blönduna. Blandið eggjahrærunni útí rjóman og frystið. Svo kemur þetta flókna ferli ef maður á ekki ísvél. Við hrærðum í ísnum á svona 30-60 min fresti þangað til hann var orðinn frostinn. Síðan var hann settur í matvinnsluvél og pippið og rólóið líka í bitum og hrærður upp til að brjóta upp ískristallanna. Þá er hann settur aftur í frysti þangað til hann er borinn fram. Tímin frá því að hann er hrærður í matvinnsluvél og þangað til hann er borinn fram eru kannski 2-3 klst. Þetta er pínu vesen, en alveg þess virði.

Jólamaturinn

Image

Andabringur með sætum kartöflum og eplasalati
image

Andabringuuppskriftin er komin úr bókinni Landsliðsréttir Hagkaupa en breytt örlítið. Sætu kartöflurnar eru úr bókinni Eldað og bakað í ofninum heima, og eplasalatið er frá Guðríði og má sjá hér.

Jólakryddaðar andabringur í púrtvínslegi

 • 4 andabringur
 • 1 kanilstöng
 • 1 msk negulnaglar
 • 1 dl púrtvín
 • 3 msk hunang
 • 2 msk þurrkaðir villisveppir
 • 100 gr smjör

Púrtvínið og hunanið sett í pott og hitað að suðu, kanilstöngin og negulnaglanrinr mulið í morteli og síðan blandað saman við púrtvínshunangið. Þurrkuðu sveppirnir eru steiktir í smjörinu og síðan blandað við púrtvínið. Þessi lögur er síðan kældur þangað til hann er nógu kaldur til að bræða ekki plastpoka. Til að fituhliðin á andabringunum opni sig betur og líti betur út þá eru skornar rákir í fituna sem mynda teningamunstur ca 1-1,5 cm stórt. Þá er andabringurnar ásamt púrtvínskryddinu settar í poka og þar látnar marinerast í ca 2 klst. Bringurnar eru steiktar á fituhliðinni þangað til þær fá gullinbrúna áferð, en líka steiktar á hinni hliðinni til að loka kjötinu. Til að fitan slettist ekki útum allt er gott að halla pönnunni annað slagið og veiða upp fituna. Hana má síðan nota í aðra matargerð, t.d. að steikja uppúr kartöflur. Við settum bringurnar í steikingarpoka og svo í ofnskúffu inní ofni og elduðum þangað til kjöthitastig mældist um 60 gráður. En steikingarpokinn er ekkert stórt atriði, það heldur ofninum aðeins hreinni og allur vökvi sem safnast úr kjötinu helst inní pokanum og auðvelt að ná honum til að gera sósu.

Sætar kartöflur

 • 2-3 sætar kartöflur
 • 100-200 gr pekanhnetur
 • graskersfræ frjálst val
 • 1 msk teriyaki sósa
 • púðursykur
 • salt?
 • Man ekki alveg, Guðríður getur kannski fyllt inní hérna

Kartöflurnar skornar í litla teninga og velt uppúr olíu og salti. Púðursykri, teriyaki sósu er blandað saman í potti og pekanhneturnar og graskersfræin steikt úppúr því. Síðan er hnetumixinu blandað til sætukartöflurnar og þetta bakað í ofni þar til kartöflurnar eru tilbúnar.

 

Morgungrautur

Image

Mig langaði í heitan morgunmat í morgun og þetta varð niðurstaðan, ég gerði eiginlega bara eitthvað. En hugmyndin er komin frá overnight oats þar sem maður leggur haframjöl, kotasælu, mjólk, ber og chia fræ. Ég set kannski uppskrif af því hérna við tækifæri.

20121220-202357.jpg

Kotasæluhafragrautur með kanil og eplum

 • 1 dl haframjöl
 • ein risastór matskeið kotasæla (kannski svona 3-4 msk ef maður mælir)
 • dash af mjólk
 • kanill

Allt hrært saman og sett inn í örbylgjuofn í svona 2 mín eða þangað til þetta er orðið einhverskonar grautur. Eplin sett útá, meiri kanill og svo meiri mjólk útá. Án eplanna held ég að þetta sé ekkert svo gott, svo myndi segja að það sé möst. En ég var mjög ánægð með þetta, á örugglega eftir að gera nokkrar útgáfur af þessu, með berjum eða kannski bönunum.

Tómatsúpa með fetaostahræru

Image

Þessa uppskrift hef ég gert nokkrum sinnum og er alltaf jafn ánægð með súpuna. Í kvöld prófaði ég að setja rækjur útí hana, eða svona bara smella ofaná, en það var bara svona allt í lagi, held ég myndi frekar bara sleppa þeim næst.

20121220-200717.jpg

Tómatsúpa

1 gulur laukur
3-4 hvítlauksrif
4 tómatar
1 ferna hakkaðir tómatar
4-5 msk tómatpúré
4-5 dl vatn
1 grænmetisteningur
1/2 kjúklingateningur
Feiti til að steikja í, smjör eða olía
1/2 lítil dós sýrður rjómi
paprikukrydd og/eða reykt paprikukrydd(ekki nauðsynlegt en gott)
cayanne pipar

Fetaosthræra

1/2 lítil dós sýrður rjómi
1 pakki fetaostur

Hakka lauk, hvítlauk og tómata og steikja þá í smjöri eða olíu. Hakkaðir tómatar, tómatpúré, vatn og teningar settir útí. Látið sjóða í 5-10 min. Allt maukað með töfrasprota. Sýrður rjómi settur útí og síðan er súpan krydduð með papriku og cayanne pipar eftir því hversu sterka maður vill hafa hana. Borið fram með fetaosthrærunni sem er smellt útí. Til að pimpa útlitið setti ég ólífuolíu og smá paprikukrydd og já rækjur en það er ekki nauðsynlegt.

Fjórar tegundir af jólakonfekti

CIMG2855_numerHér eru fjórar laufléttar uppskriftir af jólakonfekti sem auðvelt er að taka með sér eða bjóða uppá í eftirrétt. Allt þetta er hægt að gera á 3 tímum á summudagsmorgni 🙂 Ég hafði hugsað mér að taka þetta með mér í vinnuna á þriðjudaginn til að bjóða uppá í jólakaffi deildarinnar.

1. Jólakúlurnar sívinsælu

(sjá uppskrift undir millimál – Hnetu rúsinu jólakúlur) nema húðaðar með 70% súkkulaði og skreyttar með pínkupons hvítu súkkulaði.

2. LCHF Snickers

 • 1 dl hnetusmjör – sykurlaust
 • 1 dl salthnetur – saxaðar í aðeins minni bita
 • 200 g 70% súkkulaði

Súkkulaðið brætt í vatnsbaði, helmingnum hellt á bökunarpappír  (ca 20 cm x 20 cm) og kælt. Hnetusmjörið og salthenturnar brætt saman í potti og hellt yfir harðnaða súkkulaðið og aftur kælt. Restinni af súkkulaðinu er svo hellt yfir hnetusmörsgúmmulaðið og aftur kælt. Þetta er svo skorið í bita eftir hentugleika.

3. LCHF Bounty

– átti að líta svipað út eins og snickers dótið en viðloðunarhæfileikar kókosins voru ekki eins og best var á kosið svo að ég blandaði bara súkkulaðinu úti og málið var útrætt. Bragðast eins:)

 • 1/4 dl sukrin
 • 25 g kókosolía
 • 0,6 dl kókosmjólk
 • 0,5 dl rjómi
 • 100 g kókos
 • 150 g 70% súkkulaði

Sukrin og kókosolía brætt saman í potti (ATH verður mjög heitt) Kókosmjólkinni og rjómanum bætt útí og seinast kókosinum og svo var þetta kælt í klukkutíma. – Þetta var upprunalega uppskriftin. Þetta átti að vera auðvelt að vinna með og svo súkkulaðihúðað…..virkaði ekki hjá mér en ykkur er velkomið að prófa. Þannig að ég sem var búin að bræða súkkulaðið setti bara kókoshræruna útí og skellti herlegheitunum á bökunarpappír, kældi og skar svo í tígla. Daði sannfærði mig um að þetta væri alveg jafn gott á bragðið.

4. Döðlukonfekt

 • Döðlur eins margar og þú vilt
 • Rjómaostur til að setja inní hverja döðlu
 • 70% súkkulaði til að húða
 • Möndluflögur til að skreyta

Chilipottréttur, í hamborgara eða bara einn og sér

20121216-202819.jpg

Seinast  þegar ég eldaði Chili prófaði ég að gera grunn uppskrift frá Marie Laveau veitingastaðnum sem er hægt að sjá hér, en ég held að hún sé eitthvað skrítin, allt of mikið að kryddum í henni, ég breytti henni allavega eitthvað þegar ég prófaði hana. Þessi uppskrift er eiginlega blanda af nokkrum uppskriftum, svo ég veit ekki alveg hvort ég geti nefnt einhverja eina sem tilvísun, en þetta var allavega mjög gott.

Chili con carne

 • 1.5 kg nautakjöt (högrev á sænsku, einhver mjög fitumikill og sprengdur framhluti, ekki hugmynd hvað það heitir á íslensku)
 • 2 gulir laukar hakkaðir
 • 6-8 hvítlauksrif
 • 4-5 msk chipotle sósa eða ferskur chipotle chili (Ef maður finnur ekki chipotle sósu má nota meira af BBQ sósu í staðin)
 • 2-3 tsk reykt paprikukrydd
 • 2-3 tsk spiskummin
 • 3-4 tsk oregano
 • 1 dl tómatsósa (eða BBQ sósa, smá sykur í þessu en ok…).
 • 1 tsk cayanne pipar (smakka til með meira eða aðeins minna)
 • 1 tsk chili (smakka til með meira eða aðeins minna)
 • Má setja slettu af viskíi eða öðru bragðsterku áfengi, en ekki nauðsynlegt.

20121216-202829.jpg

Kjötið brúnað í góðum potti með slatta af smjöri eða olíu. Öllu öðru bætt útí og látið malla í pottinum í 5-6 klst, því lengur því betra. Borið fram annaðhvort sem “hamborgari”  með avocado, tómötum og sýrðum rjóma eða bara í skál með sýrðum rjóma.  Þetta fékk að malla á meðan ég var að gera súkkulaði trufflurnar og piparkökurnar sem ég er að fara með í vinnuna á morgun.